145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Erna Indriðadóttir á þakkir skyldar fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp og sömuleiðis fyrir þá alúð sem hún hefur lagt þessum málaflokki með því að halda úti merku vefriti, Lifðu núna, sem helgar sig eingöngu málefnum eldra fólks. Staðreyndin er sú að eldra fólk er afskipt. Það er sjaldgæft að málefni þess séu tekin til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Á vinnumarkaði er það líka afskipt. Þær tölur sem komu hér fram í máli hv. framsögumanns um að atvinnuleysi 60+ væri 26% verða ekki til af sjálfu sér. Staðreyndin er sú að á Íslandi skortir fyrirtæki á almennum markaði samfélagslega ábyrgð og það á því miður líka við meðal opinberra fyrirtækja, bæði bankastofnana sem ríkið á stóran hlut í og Ríkisútvarpsins.

Svo virðist sem fólki sem er farið að halla í og yfir sextugt sé skipulega rutt út af vinnumarkaði. Til skamms tíma var staðan þannig í bönkunum að hver einasta kona sem vann þar og var farin að halla í sextugt fékk skjálfta í hnén þegar nálguðust mánaðamót. Bankarnir virtust um tíma vera skipulega að koma frá sér konum sem höfðu jafnvel unnið þar áratugum saman og skipta þeim út. Ég tel að það sé lágmark að fyrirtæki sem hið opinbera á einhvern hlut í taki upp eigendastefnu sem markast af samfélagslegri ábyrgð þar sem fyrirtækið stendur með þeim sem hafa staðið með fyrirtækinu.

Í þessu efni, herra forseti, þá hryggir það mig að þurfa að segja að ég tel að Alþingi Íslendinga hafi ekki gengið á undan með góðu fordæmi í þessum efnum. Það er hægt að gera þetta með ýmsum hætti. Eitt af því er þingmál sem ég hef lagt fram um það að þegar kemur að því að lækka tryggingagjald þá verði það gert aldurstengt (Forseti hringir.) þannig að kostnaður fyrirtækja vegna starfsmanna sem eru 60+ verði minni en annarra. Í því felst fjárhagslegur hvati.