145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:09]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Stór hluti fólks sem komið er á sjötugsaldurinn er í raun í dag kornungt fólk. Við lifum lengur og við erum ung lengur. Það eru ákveðnir fordómar samt í samfélaginu sem tengjast þessum aldurshópi sem fær til dæmis ótrúlega litla umfjöllun í fjölmiðlum og litla athygli. Á margan hátt er hópurinn ósýnilegur en hann er gríðarstór. Í honum eru tugir þúsunda á Íslandi og hann fer stækkandi án þess þó að verða meira sýnilegur. Fólk á aldrinum 60+ á oft erfitt með að fá vinnu, og það á ekki síst við um konur, sem veldur því að fólk þorir ekki að breyta. Það þorir ekki að flytja og þorir ekki að segja upp atvinnu sem það er kannski ekkert sérstaklega sátt við. Það býr því við ákveðna fjötra. Fólk veigrar sér við að flytja á milli staða vegna þess að það hefur fengið einhverja viðurkenningu á staðnum sem það er á en fær kannski stimpil vegna aldurs þegar það kemur á nýjan stað. Það er með ólíkindum hvað atvinnulífið metur lítið þekkingu og reynslu þeirra sem eldri eru. Hugmyndir um sveigjanlegan eftirlaunaaldur eru mjög spennandi. Er það ekki í raun galið að alltaf sé horft á lífaldur þegar við ættum að horfa á heilsu, áhuga og getu til atvinnuþátttöku? Er það ekki í raun galið að fullfrískt fólk sé hrakið af vinnumarkaði sökum aldurs? Ég hef setið í velferðarnefnd síðan ég kom til starfa á þinginu og þar hafa málefni aldraðra verið til umfjöllunar. Það hefur komið skýrt fram að gríðarlega mikilvægt er fyrir fólk á efri árum að fá tækifæri til þess að vera virkt í samfélaginu og hreyfing er þar grundvallarþáttur. Fólk getur hægt verulega (Forseti hringir.) á öldrunarferlinu með því að hreyfa sig reglulega. Það er gott fyrir heilann og kroppinn og það er gott fyrir samfélagið allt. Að vera þátttakandi í atvinnulífinu hlýtur að virka á svipaðan hátt og hreyfing.