145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að við þessa umræðu þá fyllist ég skelfingu því það er nú þannig að á næsta ári þá öðlast ég þann rétt að verða eldri borgari, (Gripið fram í: Enginn sér það.) verð 67 ára gömul. Mér þykir eiginlega með ólíkindum, virðulegi forseti, að allt frá því að Bismarck ákvað það, 1894 held ég að það hafi verið, að við þann aldur yrði maður gamall og þreyttur og það ætti að setja mann til hliðar, sé það enn þá við lýði. Ég held að fyrst og síðast í allri þessari umræðu þurfi að velta því fyrir sér hvort 67 ára gamalt fólk sé orðið eldri borgarar og það þurfi að setja það til hliðar eða jafnvel um sextugt. Það mætti hugsa um þann hóp sem nær jafnvel níræðis- og tíræðisaldri í ákveðnum hólfum, t.d. 60–70, 70–80, 80–90. En fyrst og síðast þarf að horfa til þess að leyfa fólki að hafa val um hvort það vill halda áfram að vinna eða ekki og draga úr þeim mörkum sem eru sett. Ef maður starfar hjá ríkinu hættir maður sjötugur. Þú getur farið á 95 ára reglu um sextugt ef sameiginlegur starfsaldur og lífaldur er fyrir hendi.

Gefum fólkinu val, horfum til þess að nýta reynslu og þekkingu allra á öllum aldri til þess að koma að því að byggja upp það samfélag sem við viljum og margir kalla eftir samfélagslegri ábyrgð. Val fólks til þess að halda áfram að vinna, val fólks til þess að velja sér tíma til að fara á eftirlaun sé á þess höndum en ekki rígbundið lögum á vinnumarkaði eða viðhorfi einstaka atvinnurekanda og þar á meðal ríkisins. Ég legg til að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því hið fyrsta að ljúka því verkefni sem er í gangi og koma á sveigjanlegum lífeyrisaldri þannig að fólk á mínum aldri hafi val.