145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:16]
Horfa

Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að hafa tekið þessa umræðu við þá sem hér stendur og fyrir skýr svör. Ég þakka líka öllum þeim sem tóku til máls í umræðunni. Það er ánægjulegt að verið sé að skoða þessi mál í þinginu og nefndir að störfum. Mér finnst líka gleðilegt að heyra að ráðherra telur að auka megi sveigjanleika við starfslok og bæta endurmenntun þeirra sem eldri eru. Sveigjanleiki og val er nokkuð sem allir eru sammála um að eigi að vera fyrir þá sem eru að eldast á vinnumarkaðnum. Ég fagna því sérstaklega að ráðherra ætlar að beita sér fyrir því að tryggja að fólki sé ekki mismunað vegna aldurs. Menn hafa rætt það hér að horfa þurfi heildstætt á þetta mál og ég er algjörlega sammála því.

En sú skoðun sem kemur stundum fram að ekki megi taka vinnu frá yngra fólki, ég veit ekki alveg hvort hún sé endilega alveg rökrétt vegna þess að ef fram heldur sem horfir, að eldra fólki muni fjölga svona mikið í þjóðfélaginu, þá eru skýrslur sem sýna það að nú eru fimm til sex manns á bak við hvern eftirlaunamann en verða tveir árið 2050. Það þýðir að unga fólkið sem er að vinna þarf þá að borga stöðugt meiri skatta, nema þetta verði leyst eins og margar Evrópuþjóðir hafa gert með innflytjendum, að þeir komi hingað og vinni störfin sem þarf að vinna og greiði skatta til ríkisins. Það þarf að horfa heildstætt á það líka, ég er svo sannarlega sammála því. Ég tel að þær tölur sem fyrir liggja um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi segi alls ekki alla söguna um stöðu þessa hóps og brýnt sé að skoða málið betur og það þurfi jafnvel að fara í sérstakt átak til að (Forseti hringir.) koma til móts við það fólk.

Svo tek ég undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni hér að lokum að við höfum bara alls ekki efni á þeirri sóun sem felst í því að nýta ekki krafta og þekkingu þeirra sem eldri eru.