145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir þær ábendingar sem koma hér fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það gengur ekki að haldið sé áfram umræðu um svo umdeilt mál sem hér er undir og virðist ekki einu sinni njóta stuðnings meiri hluta þingsins. Hér hafa framsóknarmenn hver á fætur öðrum lýst því yfir, þó að þeir hafi ekki gert það í þessari lotu enn þá en munu væntanlega gera það, að þeir séu ósammála þessari nálgun. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur ítrekað skrifað um það, bæði á Facebook-síðum sínum og annars staðar, að hann sé andsnúinn þessu máli enda er það engan veginn í samræmi við samþykkta heilbrigðisstefnu Íslands, að ég tali ekki um ábendingar á alþjóðavettvangi sem við höfum gert að okkar, alþjóðaskuldbindingar og svo framvegis.

Forseti. Það gengur ekki annað en að hæstv. heilbrigðisráðherra taki þátt í þeirri umræðu sem hér er lagt upp í og ég legg til (Forseti hringir.) að við látum þessa umræðu duga fyrir matarhlé og freistum þess að ná heilbrigðisráðherra í hús áður en lengra verður haldið.