145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er undarleg forgangsröðun hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni á þessum degi þegar lögreglumenn standa og mótmæla stöðu lögreglunnar fyrir utan þinghúsið og margvísleg alvarleg mál þarf að taka á dagskrána, að þá sé brennivín í búðir áfram í fullum forgangi í þinginu.

Ég hélt að ræða ætti forgangsmál af hálfu heilbrigðisráðherra í dag, um staðgöngumæðrun, en það er greinilega fullur ásetningur heilbrigðisráðherra og Sjálfstæðisflokksins að brennivín í búðir sé í fullum forgangi á dagskránni. Þess vegna sjáum við ekki staðgöngumæðrunina, stjórnarfrumvarp sem alla jafna nyti forgangs hér sem 1. mál á dagskrá. Ég held hins vegar að þótt það sé auðvitað heimilt fyrir heilbrigðisráðherrann að hafa brennivín í búðir sem sérstakt forgangsmál í þinginu verði að gera þá kröfu með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að heilbrigðisráðherrann sé viðstaddur umræðu um það heilbrigðismál sem klárlega er á ferðinni. Sama hvort menn eru með því að selja brennivín í búðum eða á móti því (Forseti hringir.) held ég að allir séu sammála um að það er mikilvægt lýðheilsumál og eðlilegt að ráðherrann taki þátt í umræðunni, ekki aðeins í útvarpssal heldur líka hér.