145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar rýnt er í ýmiss konar stefnuskjöl ríkisstjórnarinnar ætti að vera þar í fylkingarbrjósti samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna þar sem áhersla er lögð á lýðheilsumál. Síðan ber svo við að hæstv. fjármálaráðherra talar sérstaklega um mikilvægi þess að koma áfengi í almennar verslanir undir dagskrárliðnum stefnuræða forsætisráðherra. Hann gerir það væntanlega sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins og þar með er það mál orðið sérstakt baráttumál Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við Framsóknarflokkinn og þá væntanlega ekki hefðbundið þingmannamál, sem hér eru allmörg og fá mismunandi afdrif eins og við þekkjum, heldur er þetta orðið mál sem hæstv. fjármálaráðherra sjálfur, Bjarni Benediktsson, setur í spíss í málafylgju sinni. (Forseti hringir.) Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér og geri grein fyrir afstöðu sinni og ráðuneytis síns (Forseti hringir.) til svo stórs máls sem varðar lýðheilsu í landinu.