145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að taka fram að ég geri enga athugasemd við það að þetta mál sé á dagskrá, mér þykir þetta mál áhugavert. Það er ekki bara spurningin um það hvort áfengi eigi að vera í búðum eða ekki sem mér finnst áhugaverð og mikilvæg, mér finnst umræðan um þetta mál mikilvæg. Ég þekki ekki annað þingmál sem nýtur jafn góðs af þinglegri meðferð og umræðu.

Þess vegna mundi ég helst vilja hafa hæstv. ráðherra hér. Ég lýsi ekki neinni hneykslun yfir því að hann sé ekki hér, mér þykir bara leiðinlegt að hann taki ekki þátt í þessu með okkur vegna þess að það væri áhugavert. Þetta er áhugavert. (Gripið fram í.)

Það sem mér finnst í raun hneysklanlegra eða leiðinlegra öllu heldur er það að hér séu ekki fleiri þingmenn, og sér í lagi þingmenn stjórnarmeirihlutans, að ræða þetta áhugaverða mál. Mér finnst eins og málsmeðferðin, þegar kemur að þessu máli, sé brengluð og gölluð að því leyti hvernig Alþingi virkar almennt.

Ég held að við getum bætt málið heilmikið ef við sýnum þinginu þá virðingu að taka eins mikinn þátt í umræðunni og mögulegt er.