145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:57]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg) (andsvar):

Mér finnst merkilegt að taka Danmörku sem dæmi því ef við tökum allar Norðurlandaþjóðirnar þá vitum við að þar eru vandamálin mest. Þar er unglingadrykkja mest og þar byrja þau yngst að drekka. Ég held að við ættum aldrei að reyna að fara inn í eitthvert danskt módel, við ætlum að reyna að forðast það eins og við mögulega getum.

Ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni um að við eigum að fara í forvarnir. Við eigum að leggja mjög mikið í forvarnir. Ég held að við getum náð og við höfum náð töluverðum árangri á því sviði. En ég get ekki séð að það að setja brennivín í búðir útiloki forvarnastarf, það gerir það klárlega ekki þannig að við erum bara sammála um að við eigum að leggja mikið í forvarnir.