145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að nefna að það er eðlismunur á því hvernig þróunin hefur átt sér stað annars vegar hér og hins vegar í Danmörku. Í Danmörku voru engin höft, núna eru þeir að vinna sig í átt til hafta, einhverra, svo sem til lágmarksaldurs og slíks, á meðan við bjuggum við algjör höft og höfum verið að vinna okkur í átt til frelsis. Það sem vekur áhuga minn er í sambandi við unglinganeyslu. Ég er alveg sammála því að heildarneyslan muni aukast og hún hefur aukist síðustu 15 ár. Hins vegar hefur áfengisneysla unglinga dregist saman og á sama tíma hefur vínbúðum fjölgað. Sýnileikinn er meiri, þjónustan er vinalegri, það er meira auglýst ef eitthvað er. Þess vegna finnst mér það ekki koma heim og saman við íslenskar staðreyndir að aukið aðgengi leiði af sér aukna áfengisneyslu unglinga. Það er einfaldlega ekki það sem hefur gerst hér. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um forvarnir og því um líkt enda er unnið að því og það er það sem hefur gert gæfumuninn. En er það ekki staðreynd samkvæmt bestu þekkingu hv. þingmanns að áfengisneysla unglinga hafi dregist saman samhliða því að aðgengi að áfengi hefur aukist mjög mikið?