145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:59]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að unglingadrykkja hefur dregist saman en ég er alveg viss um að ÁTVR er hluti af því. Það er í raun og veru breytingin á þessari menningu sem við höfum verið að tala um, ríkið hefur staðið að heilmiklu forvarnastarfi og skólakerfið og menntakerfið allt gerir það. Ég held að við ættum að gleðjast mjög yfir því að við höfum verið að ná gríðarlegum árangri þar. En ég sé aftur á móti ekki alveg samhengið, að einhver rök séu fyrir því að við eigum að fara að selja brennivín í búðum. Ég er alveg sannfærð um að stórmarkaðirnir — eða ég leyfi mér að efast um, við skulum segja það, að stórmarkaðirnir ætli að fara í þá vinnu sem ríkið hefur farið í. Ríkið lítur á það sem samfélagslega skyldu sína að vera með forvarnastarf og reyna að hafa áhrif á kúltúrinn. Ég leyfi mér að efast stórlega um það að stórmarkaðirnir muni gera það.