145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt eigum við sameiginlegt, ég og hv. þm. Ingibjörg Þórðardóttir, að við höfum áhuga á víni. Vín gleður mitt hjarta. En ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að sumir ráða ekki við það.

Ég held að ræða hv. þingmanns muni ekki endast vel, ekki frekar en ræður margra þingmanna sem börðust gegn því að hér yrði seldur bjór. En menn hamra mikið á lýðheilsusjónarmiðunum og ég verð að segja að ég næ ekki alveg þeim öllum. Hér er fullyrt að rannsóknir sýni að hér muni drykkja aukast mikið. Ég veit ekki hvort menn hafa kafað almennilega ofan í þessar rannsóknir en fátt fer meira í taugarnar á mér en þegar menn segja: Rannsóknir sýna.

Eitt vitum við. Þrátt fyrir mjög aukið aðgengi að áfengi á Íslandi núna í mörg ár, þá hefur drykkja unglinga dregist saman. Hvaða skýringu kann hv. þingmaður á því?