145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ingibjörg Þórðardóttir nálgaðist þetta mál með nokkuð nýstárlegum hætti fyrir mig. Hv. þingmaður hafði af því töluverðar áhyggjur að ef brennivín yrði sett í búðir þá mundi það mjög torvelda kúltíveraða drykkju á landsbyggðinni og einkum í Neskaupstað. Þetta setti málið í nýtt samhengi fyrir mér alveg eins og á sínum tíma þegar ég las í fyrsta skipti mjög kaldhæðnisleg ummæli Oscars Wilde, sem birtu fyrir mér angistina sem kann að fylgja áfengisneyslu úr hófi fram. Það voru hin frægu ummæli hans: „Vinnan er böl hinna drekkandi stétta“. Það setti hlutina í nýtt samhengi fyrir mig.

En ræða hv. þingmanns vakti mig hins vegar til umhugsunar um neytendasjónarmiðin sem hv. þm Brynjar Níelsson ber líka fyrir brjósti og ég hafði aldrei hugsað hlutina út frá því. Kann það að vera að ef þetta frumvarp nær fram að ganga muni úrvalið fyrir þá sem vilja stunda kúltíveraða hófdrykkju og eiga kost á því að velja úr góðum vínum minnka og staða þeirra að versna til muna? Ef svo er þá er ég sannfærður um að við munum jafnvel ná hv. þm. Brynjari Níelssyni í lið með okkur sem höfum miklar efasemdir um hversu gott þetta frumvarp er.