145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir spurninguna. Hún er býsna snúinn að því leytinu til að maður gæti fallið í þá gryfju að halda því fram og þar með staðfesta að það væri mótsögn í þeirri ræðu sem að ég hélt hér áðan, að takmarkað aðgengi hefði ekki áhrif á neyslu. Þvert á móti sagði ég í ræðu minni að eitt af þeim ráðum, og það er hárrétt, væri að takmarka aðgengi. Það var meðal annars upphafleg stefna ÁTVR að takmarka aðgengi, gera fólki hreinlega erfitt fyrir að nálgast þennan mjöð. Það hefur gerbreyst. Það er ákveðin þversögn í því. Í dag mælum við jafnvel með þeirri frábæru þjónustu sem að vínbúðirnar veita. Þær minna okkur á það reglulega að við eigum ekki að gleyma kortinu heima. Útsölustöðum hefur fjölgað á einhverju árabili, þeir hafa þrefaldast. Á sama tíma hefur til að mynda drykkja barna og unglinga farið stórminnkandi. Því er að þakka frábæru lýðheilsu- og forvarnastarfi samtaka á því sviði, foreldrasamtaka, ungmennafélaga, íþróttahreyfinga og fræðslu og forvarna til að mynda.

Ég vil því segja að margir aðrir þættir eru í opinberri áfengisstefnu sem geta unnið með og stuðlað að lýðheilsu. Það var kjarninn í ræðu minni. Það er ekki þar með sagt, þó að við breytum sölufyrirkomulaginu, að það eitt og sér muni leiða til svo mikillar aukningar ef við vinnum vel að öllu hinu. Bretar eru til dæmis að skera upp (Forseti hringir.) herör í sínum málum. Hvað gera þeir? Þeir hækka (Forseti hringir.) verð. Þeir breyta ekki sölufyrirkomulaginu.