145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur seinna andsvar. Fyrst að viðskiptafrelsinu. Mjög athyglisverð umsögn var frá að mig minnir Brugghúsi Steðja varðandi aukna möguleika sem felast í frumvarpinu til að sinna ferðamönnum og opna jafnvel á svona beint frá býli-hugmyndafræði. Ég held að þau tækifæri mundu skapast um allt land. Þetta er mjög athyglisverð umsögn og þeir voru reyndar á viðskiptalegum sjónarmiðunum og frelsishugmyndinni hlynntir frumvarpinu. Ég sé fullt af tækifærum í því. Við eigum frábæra frumkvöðla á þessu sviði víða sem styrkja ferðaþjónustuna, ekki spurning. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Varðandi þær rannsóknir sem vitnað hefur verið til um breytt sölufyrirkomulag og að fara frá einokunarfyrirkomulagi yfir í einkafyrirkomulag, þá er til að mynda verið að vitna í rannsókn frá Finnlandi frá árinu 1969. Hvað hefur breyst síðan þá á þeim áratugum? Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á að áhrif af verðbreytingum séu tvöfalt meiri en af aðgengi, og sölufyrirkomulag er bara einn einangraður þáttur af takmörkun að aðgengi. Við þurfum að taka allar þessar upplýsingar og setja í eitthvert samhengi áður en við fullyrðum um það og heimfærum upp á okkar þjóðfélag. Í Svíþjóð breyttu menn auglýsingalöggjöfinni í leiðinni og lækkuðu verðið eins og annars staðar til að fylgja Evrópusambandinu. Það hefur auðvitað áhrif á móti. Aukin velmegun í Finnlandi þessa áratugi, er það tekið inn í þessar fullyrðingar? Nei. Það eina sem ég bið um er að setja (Forseti hringir.) þetta í eitthvert samhengi áður en við förum að fullyrða um íslenskt samfélag.