145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða þetta mál því að alloft hefur það verið á dagskrá þingsins frá því að ég tók hér sæti, þó með ýmsum tilbrigðum frá árinu 2007, og alltaf hefur eitthvað komið upp á sem hefur orðið til þess að ég hef ekki getað tekið til máls um það. Ég held svei mér þá að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek til máls um það að breyta fyrirkomulagi á einkasölu hins opinbera á áfengi. Ég mun því nýta tíma minn vel hér, þessar 15 mínútur, um þetta mál.

Málið er eigi að síður þess eðlis, svo að ég segi það hér í upphafi, að mörgum sem ég hitti úti í samfélaginu finnst merkilegt að Alþingi setji það í forgang á dagskrá sinni. Í gangi eru verkfallsaðgerðir sem hafa lamandi áhrif á skólastarfsemi, heilbrigðisþjónustu, sem og á áfengisverslun ríkisins, en við stöndum hér og ræðum þetta mál enn eina ferðina. Þegar maður gengur hér yfir Austurvöll, á leiðinni frá skrifstofunni hingað og til baka, þá eru margir sem furða sig á því að þetta mál sé með jafn háan forgang á dagskrá Alþingis og raun ber vitni. Það er nú svo.

Þarna takast á ákveðin grundvallarsjónarmið og það er tvennt sem ég held að ég hafi tíma til að gera grein fyrir hér. Þar eru annars vegar lýðheilsusjónarmið, sem hafa verið mjög áberandi í ræðum þeirra hv. þingmanna sem talað hafa gegn frumvarpinu, og hins vegar ákveðin grundvallarsjónarmið um frelsi, frelsi einstaklingsins og hvernig við högum okkar málum í samfélaginu. Þeir sem styðja þetta mál og mæla fyrir því líta gjarnan á þetta sem boðskap frelsisins. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur til dæmis talað á þann veg að þetta snúist um aukið frelsi. Mér finnst mikilvægt að við setjum það niður fyrir okkur.

Ef við skoðum til dæmis það sem heimspekiprófessorinn Róbert H. Haraldsson skrifar þá er erfitt að halda því fram að þetta mál snúist um frelsi einstaklingsins. Þetta mál snýst vissulega um viðskiptafrelsi, verslunarfrelsi, sem hefur verið eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins um langa tíð, en það stenst enga skoðun að halda því fram að það skerði einstaklingsfrelsi borgara í þessu landi að þeir þurfi að leggja meira á sig til að kaupa áfengi, með því að sækja í sérstakar áfengisverslanir, en hefðbundna neysluvöru. Róbert H. Haraldsson hefur farið ágætlega yfir það í greinum sínum og bendir meðal annars á að frjálslynd samfélög reisi öll ýmsar skorður við verslun og ekki síst með áfengi.

Ekki hefur verið sýnt fram á það með neinum sannfærandi hætti að núverandi skipan mála feli í sér skerðingu á einstaklingsfrelsi. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hver frelsisskerðingin er. Vissulega má styðja þetta með rökum um verslunarfrelsi, en það er ekki hið sama og einstaklingsfrelsi. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum þá grundvallarspurningu og reifum hana hér þegar við ræðum þetta mál.

Við vitum líka, þegar rætt er um að þetta snúist um að nútímavæða sölu áfengis, að það fyrirkomulag sem er á sölu áfengis hér er ekkert sérstaklega gamaldags. Þetta fyrirkomulag er til dæmis við lýði í sumum fylkjum Bandaríkjanna, í öðrum fylkjum er það með öðrum hætti. Sama má segja um Kanada. Við höfum sams konar fyrirkomulag í Noregi og í Svíþjóð sem eru samfélög sem mælast yfirleitt mjög ofarlega þegar við mælum lífsgæði, hagsæld og almennan árangur, samkeppnishæfni. Þessi samfélög eru eigi að síður með einkasölu á áfengi. Af hverju hafa þau haft einkasölu á áfengi? Jú, af því að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Og þar komum við að lýðheilsusjónarmiðunum.

Hér hafa menn verið að vitna til þess að breyting á þessu fyrirkomulagi muni ekki endilega hafa áhrif á lýðheilsu, jafnvel hefur verið vitnað í gamlar skýrslur sem beri vott um breytta samfélagshætti. En það þarf ekki að leita lengra en í samantekt landlæknisembættisins um áfengismál — þar sem finna má rannsóknarskýrslur um áfengi, neyslumynstur áfengis, áhrif áfengisneyslu á einstaklinga og samfélög, áhrif breytinga á sölufyrirkomulagi áfengis og gagnreyndar aðgerðir til að draga úr eða sporna við skaðlegum áhrifum áfengis — til að sjá að aðgengi að áfengi skiptir mjög miklu máli þegar kemur að neyslu. Þá er ég ekki að tala um það, eins og fylgismenn þessa frumvarps hafa bent á, að það er vissulega heilmikið aðgengi að áfengi í Vínbúðunum, áfengis- og tóbaksverslunum ríkisins. En með því að halda þessu fyrirkomulagi sérstöku, utan við hina almennu neysluvöru, er löggjafinn að draga ákveðið strik og segja, og því getur enginn andmælt: Áfengissala lýtur sérstökum lögmálum. Þetta er ekki venjuleg neysluvara. Eða finnst okkur það? Finnst okkur áfengi vera venjuleg neysluvara? Ef við skoðum skaðsemina af neyslu áfengis þá er hún ótvíræð.

Svo að ég ljúki því sem sagt er í þessum rannsóknarskýrslum, sem eru frá síðustu árum, þá kemur fram að það að breyta sölufyrirkomulagi á áfengi, það að einkavæða sölu áfengis og færa það yfir í matvöruverslanir mun auka neyslu. Hér eru til dæmis skýrslur frá 2012, 2009, 2010, margar hafa verið gerðar í Svíþjóð þar sem verið er að ræða þessi mál af því að þar er sama fyrirkomulag og hér, en við erum líka með bandarískar skýrslur sem benda til þess sama. Gefið er til kynna í greinargerð með frumvarpinu, og því er líka spáð þar, að það muni jafna sig. Hvað höfum við fyrir okkur í því? Ég hef ekki fundið skýrslurnar um það hvað flutningsmenn frumvarpsins hafa fyrir sér í því.

Við getum ekki horft fram hjá því að aukist áfengisneysla hefur það í för með sér verulega aukin áhrif af þeirri sömu áfengisneyslu. Þetta er nefnilega ekki eins og brauð, mjólk eða bananar eða hvað það er sem við kaupum í matvöruverslunum. Okkur finnst flestum eðlilegt að hafa sérreglur þegar kemur að lyfjasölu. Eða finnst okkur það ekki? Finnst okkur að hún eigi að vera í matvörubúðum? Hvar ætlum við að draga mörkin?

Hér var Bretland nefnt áðan en Bretar hafa stigið nokkur skref að undanförnu. Útsölustöðum áfengis hefur verið fjölgað jafnt og þétt og árið 2012 var fjöldi áfengisútsölustaða í Englandi og Wales kominn í ríflega 51.000 og 220.000 sé þeim stöðum bætt við sem hafa leyfi til að selja áfengi til neyslu á staðnum. Þetta er þróunin í Bretlandi undanfarinn áratug. Gríðarleg fjölgun áfengisútsölustaða. Þetta er það sem stendur eftir þar. Þar er núna talað um áfengisfaraldur. Það er faraldur áfengisneyslu á Bretlandseyjum. Nú er búið að setja á laggirnar þingmannahóp úr öllum flokkum sem á að reyna að leggja til aðgerðir. 1,2 milljónir Breta eru lagðar inn á spítala vegna áfengisneyslu á hverju ári. Ætlum við að borga það með þessu hækkaða áfengisgjaldi? Er ekki betra að koma bara í veg fyrir þennan skaða í staðinn fyrir að vera að borga hann eftir á? Á hverri klukkustund deyr einn Breti vegna áfengisneyslu, og lifrarsjúkdómurinn er eini meiri háttar sjúkdómurinn sem Bretar hafa ekki náð neinum tökum á. Á undanförnum tíu árum hefur 112% aukning orðið á lifrarsjúkdómum hjá ungu fólki, á undanförnum áratug. Þetta eru sláandi tölur og þetta er sett í beint samhengi við fjölgun útsölustaða á áfengi.

Erum við, sem störfum hér á Alþingi, reiðubúin til að stíga það skref — undir þeim formerkjum að við séum að auka frelsi, þó ekki einstaklingsins heldur verslunarinnar — að valda þessum samfélagslega skaða? Nú kann að vera að við séum í grundvallaratriðum ósammála um það hvort samfélagið eigi að reka lýðheilsustefnu. Vafalaust eru hér einhverjir hv. þingmenn, og ég ber virðingu fyrir því, sem finnst það ekki vera hlutverk hins opinbera að hafa lýðheilsustefnu. En við vitum samt að það er á ábyrgð hins opinbera að veita hinum veiku þjónustu, ekki satt? Því er ekki óeðlilegt, að mínu viti, að segja að hið opinbera eigi að hafa lýðheilsustefnu. Þar er ég sammála ríkisstjórninni, sem hefur sett á laggirnar sérstaka ráðherranefnd um lýðheilsumál. Á sama tíma er verið að ræða það hér að fara í lagabreytingu sem allar rannsóknir og öll gögn benda til að muni auka neyslu áfengis, og flestar rannsóknir benda líka til að aukin neysla muni hafa veruleg áhrif á heilsu landsmanna. Og þetta á að gera í nafni verslunarfrelsis.

Frú forseti. Þegar við setjum rökin á vogarskálarnar og metum hvað vegur þyngst í þessum efnum þá tel ég það ekki vega nægilega þungt sem rök í málinu að auka verslunarfrelsi og valda hugsanlega auknum skaða þar á móti. Hér hafa menn nefnt að verð geti líka haft stýrandi áhrif á áfengisneyslu og vafalaust er það svo, en þá verð ég að kjósa það að skoða samt þau gögn sem fagstofnanir okkar á sviði lýðheilsu og læknisfræði hafa lagt fram. Þegar við tökumst á um mál hér hefur Alþingi, stjórnmálin almennt, einmitt verið gagnrýnt fyrir að taka ákvarðanir án þess að hlusta á fagfólk. Það er lykilatriði í rannsóknarskýrslu Alþingis, níu bindum, að stjórnmálamenn hafa tekið ákvarðanir án þess að hlusta á fagfólk, hafa jafnvel hunsað þeirra sýn á mál.

Mér finnst það vera umhugsunarefni, þegar við stöndum hér og ræðum þetta mál, að um það hafa komið margar umsagnir. Ég er bara með nokkrar þeirra: Landlæknisembættið, Félag lýðheilsufræðinga, Læknafélag Íslands, umboðsmaður barna, Barnaverndarstofa, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, Félag hjúkrunarfræðinga. Þetta er fagfólkið sem við treystum. Þetta er fagfólkið sem við treystum fyrir heilbrigðisþjónustunni okkar til að annast og verja hagsmuni barnanna okkar. Hvað er þetta fagfólk að segja? Hvað er fagfólkið að segja, það fagfólk sem ég taldi hér upp? Það leggst gegn þessu frumvarpi. Það leggst gegn því með þeim góðu rökum að þó að menn vilji auka hér verslunarfrelsi þá séu það ekki nægjanlega sterk rök gegn þeim skaðvænlegu áhrifum sem aukið aðgengi að áfengi getur falið í sér. Og þarna er verið að horfa til lýðheilsu, það er verið að horfa til heilbrigðismála og það er verið að horfa til félagslegra hagsmuna.

Mér finnst, frú forseti, þegar við ræðum þetta mál hér, að á þessa fagmenn þurfum við að hlusta. Við eigum að skoða þær rannsóknarskýrslur sem hér er verið að vitna til og velta því fyrir okkur hvort okkur finnist það nægjanlega mikilvægt að ganga þessa leið

Að lokum langar mig að segja eitt, sem kom fram hér þegar við ræddum þetta mál — þó ekki ég, en ýmsir þingmenn ræddu þetta mál hér á síðasta þingi: Um svipað leyti kom til landsins breski geðlæknirinn David Nutt, sem hélt hér erindi um afglæpavæðingu fíkniefna, sem er stórt mál, pólitískt mál, sem er mjög mikilvægt. Ég styð það að fíkniefnastefna okkar verði meðal annars endurskoðuð út frá því sem prófessorinn sagði. Hann var spurður, í viðtali í Ríkisútvarpinu, hvort Íslendingar ættu, í ljósi frjálslyndra viðhorfa hans til afglæpavæðingar fíkniefna, hvort við ættum að einkavæða áfengissölu, hvað honum fyndist um það. Hvað sagði David Nutt? Hann ráðlagði Íslendingum eindregið að halda sig við núverandi fyrirkomulag og takmarka þannig skaðsemi áfengis. Hann talaði hins vegar fyrir frjálslyndum viðhorfum í því hvernig við tökum á fíkniefnamálum, að samfélagið styðji við þá sem eiga við slík vandamál að stríða frekar en að refsa þeim. (Forseti hringir.) Hann sagði: Skaðsemin af hinu getur orðið ótvíræð. Ég held að á þann fagmann eigum við líka að hlusta, frú forseti.