145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Munurinn á reglum um áfengiskaup og umferðarreglur er kannski helst sá að umferðarreglur eru fyrst og fremst hugsaðar til að verja fólk gegn skaða af völdum annars fólks. Þegar maður stjórnar ökutæki ber maður sjálfkrafa ábyrgð á lífi og limum annars fólks. Þegar kemur að lýðheilsusjónarmiðum tengdum áfengi, þ.e. skorpulifur og sjúkdómum sem áfengi veldur, þá sé ég eðlismun. Það er munur á því að vernda einhvern fyrir sjálfum sér og vernda einhvern fyrir öðrum einstaklingum. Þess vegna er ég að velta þessu upp. Kostnaðurinn við lýðheilsusjónarmiðin gerir það að verkum að sjálfkrafa verður hlutverk ríkisins að passa heilsu hvers og eins óháð því hvað þeim finnst. Það er sú tenging sem ég er að velta hérna upp. Ég neyti áfengis. Ég tek meðvitaða ákvörðun um að ganga á heilsu mína til þess að skemmta mér aðeins með áfengi. Það er mín ákvörðun. Ég þarf enga aðstoð við að taka þá ákvörðun. Mér finnst það ekkert sjálfkrafa koma ríkinu eða öðrum við, bara vegna þess að aðrir borga skattfé til þess að fjármagna heilbrigðiskerfið.