145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar dagskrá þingsins þá var ég fyrst og fremst að kasta hér fram sjónarmiðum sem ég hef heyrt. Í sjálfu sér er það bara úrlausnarefni forseta hvað hann setur á dagskrá þingsins. En ástæða þess að ég nefndi það er að þetta mál hefur auðvitað oft áður verið á dagskrá og stundum við sérkennilegar kringumstæður eins og við sem vorum hér 2009 í janúar munum. Þetta er mál sem virðist hafa ákveðinn táknrænan merkingarauka í hugum fólks og það var ástæðan fyrir þessum orðum mínum í upphafi án þess að ég væri að setja út á það eitthvað sérstaklega að málið væri á dagskrá þingsins.

Hvað varðar hugsanlegan ábata, getum við sagt, af hækkun áfengisgjalda sem hv. þingmaður vísar í þá verðum við að horfa á það sem mér finnst málið snúast um sem er að aukin neysla, sem ég tel að sé fylgifiskur þess að fjölga útsölustöðum og tel mig vera búna að lesa nægjanlega margar skýrslur (Forseti hringir.) um það, hafi í för með sér skaða sem verði ekki endilega bættur með fjármunum.