145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að komast að í ræðu þar sem andstæðingar þessa frumvarps eru ótrúlega duglegir að ræða það, sem er mjög áhugavert þegar um þingmannamál er að ræða. Ég hef mælt fyrir þessu máli áður og þá var ekki nokkur leið að draga þingmann inn í það, enda held ég ekki að það sé vegna þess að þeir hafi áhuga á málefnalegri umræðu sem þingmenn tala svona mikið, en það er annað mál.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég hlusta á þessar ræður þá dett ég aðeins út, þetta er svo sannfærandi allt saman, en svo man ég að við búum í mannheimum. Ég bý hér. Ég er búinn að búa á Íslandi og vera til í nærri hálfa öld. Ég vil spyrja hv. þingmann hver óskastaðan sé. Hvað er hæfilegt aðgengi? Þegar ég ólst upp var ástandið þannig, og kannski er það draumastaðan, að enginn á Íslandi fékk að kaupa áfengi nema benda yfir borð. Úti á landi fengu menn ekki áfengi nema í bréfpokum (Forseti hringir.) og það kom með rútunni. Var þetta óskastaðan? Eða hvernig vill hv. þingmaður sjá þetta ef hún vill takmarka aðgengi að áfengi?