145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð og vil segja að hv. þingmaður Katrín Jakobsdóttir ber svo sannarlega sín fáu ár mjög vel. En við erum ekki bara komin hingað til að skjalla hvert annað.

Af hverju er sátt um þetta núna? Ef menn trúa því virkilega að skert aðgengi sé af hinu góða, erum við þá sátt við að aðgengi hafi verið aukið jafnt og þétt? Það getur ekki verið. Meira að segja við í Grafarvogi fáum ríkisverslun fljótlega. (Gripið fram í.) Við erum að fá ríkisverslun. (Gripið fram í.) Það er búið að skammta okkur ríkisverslun, hvorki meira né minna. Þetta gengur auðvitað ekki ef við trúum því að mikilvægt sé að hafa skert aðgengi, þá verðum við að stoppa það. Og svo er opið langt fram eftir degi, jafnvel á laugardögum.

Virðulegi forseti. Ef við trúum því að skert aðgengi sé málið þurfum við að bretta upp ermar og virkilega taka hér á og fara aftur til þeirra gömlu tíma þegar ekki var nokkur einasta leið að kaupa áfengi nema með ærinni fyrirhöfn.