145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn þá að hlusta eftir rökunum fyrir því að gera það sem gert er í öðrum löndum. Ég spyr hv. þingmann um nákvæmlega það sama og ég spurði hv. þingmann sem talaði hér á undan: Hvað er hæfilegt aðgengi og af hverju? Við vitum öll að áfengi hefur ákveðna sérstöðu eins og ýmsar aðrar vörur, þess vegna gilda um það ákveðnar reglur. En hins vegar er ákveðin skinhelgi fólgin í því ef menn segjast vilja viðhalda núverandi ástandi og tala svo fyrir skertu aðgengi.

Við hv. þingmenn förum oft til útlanda og við lendum í því í landi eftir landi að þar er áfengi selt í matvöruverslunum. Ég og hv. þingmaður erum jafnvel eftirlitslausir í Evrópu og getum farið í venjulegar verslanir og keypt okkur áfengi. Er það ekki nokkuð sem við þurfum að taka á? Í ofanálag lendum við í því, ég og hv. þingmaður, sem ferðumst nú nokkuð m.a. vegna starfa okkar, að fara í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þar geta m.a. einkaaðilar selt okkur áfengi ef svo ber undir. Reyndar er það þannig að úti um alla borg, úti um allt land selja einkaaðilar áfengi. (Gripið fram í: Það stuðlar að aukinni neyslu.) Hv. þingmaður kallar fram í að það stuðli að aukinni neyslu þannig að það er ágætt að heyra það frá hv. þingmanni hvað hann vill gera í þessu ófremdarástandi. Ættum við ekki að fara aftur til þess tíma sem við munum báðir þegar var hér almennilega skert aðgengi? Svo getum við líka rætt um hvaða afleiðingar það hafði að auka aðgengið. Hér var auðvitað fullkomið himnaríki fyrir nokkrum áratugum síðan þegar varla var hægt að kaupa áfengi nema hafa verulega mikið fyrir því. Er það ekki rétt munað, hv. þingmaður?