145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er mikið í mun að svara hv. þingmanni. Jú, hér var himnaríki á jörð. Hér var neysla áfengis einungis á milli 3,5 og 3,7 lítrar á mann. Hún er í dag 7 lítrar. Af hverju? Jú, vegna þess að aðgengið hefur stóraukist. Hvar? Hérna hinum megin við Austurvöllinn, þar sem m.a. einkaaðilar selja okkur áfengi, liggur aukningin í sölu áfengis. Samkvæmt upplýsingum landlæknis liggur hún ekki nema að litlu leyti hjá ÁTVR. Hún liggur annars staðar, fyrst og síðast í veitingastöðunum og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

En af því að hv. þingmaður minntist á ferðalög okkar félaganna — ég hef nú ekki ferðast eins mikið og hann á vegum þingsins en það er önnur saga — langar mig til að benda honum á, af því að ég veit að hann fer oft til Ameríku, að í bréfi frá embætti landlæknis, er vitnað í samantekt, Rannsóknarskýrslur um áfengismál — samantekt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrirkomulag áfengissölu í fylkjum Bandaríkjanna er skoðað og metnar afleiðingar einkavæðingar á áfengissölu. Niðurstaða: Öll fylki í Bandaríkjunum setja einhverskonar kvaðir á áfengi, svo sem í formi skattlagningar, takmörkun á áfengissöluleyfi …“ o.s.frv.

Jafnframt segir:

„Einkavæðing á sölu áfengis leiðir ekki til fullkomins frjáls markaðar. Fylki með stýrða áfengissölu eru líklegri til að halda úti verslunum á fámennum svæðum. Fylki með stýrða áfengissölu neyta 13% minna af sterku áfengi og 7% minna af áfengi meðal 15 ára og eldri. Einkavæðing vínbúða eykur áfengisneyslu og skaðsemi af völdum þess svo sem líkamsárásir, sjálfsvíg, umferðarslys, lifrarbólgu og fleiri sjúkdóma. Samfélagslegur kostnaður af völdum áfengisneyslu hefur verið metinn meiri en tekjur hins opinbera af virðisaukaskatti, leyfisgjöldum, tekjuskatti, aðflutningsgjöld og vörugjöldum.“

Það er það ástand, hv. þingmaður, sem ég og fleiri viljum koma í veg fyrir vegna þess að lýðheilsan er náttúrlega númer eitt. Ég kem að því betur á eftir.