145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir spurninguna. Í yfirliti landlæknis yfir selda áfengislítra 1986–2014 segir að seldir áfengislítrar árið 1988 hafi alls verið 4,5 lítrar en 7,18 árið 2014. Seldir lítrar út úr vínbúðum voru 4,48 lítrar árið 1988 en eru 5,34 nú. Það segir okkur þessir tveir aukalítrar eru út af öðrum söluleiðum, eins og veitingastöðum.

Vil ég setja opnun veitingastaða skorður? Þetta er mjög góð spurning vegna þess að Bretar standa frammi fyrir henni núna. Þeir hleyptu lausum opnunartíma veitingastaða fram á nótt og fram undir morgun fyrir nokkrum árum síðan og hver var afleiðingin? Lögreglan í Bretlandi var allar helgar, alla morgna að draga ósjálfbjarga fólk upp úr götunni. Þetta kom fram í fréttum, bæði í The Guardian og víðar. Hverjir voru helstu fórnarlömbin? Það voru ungar konur. Þetta er eitt af því sem hefur komið fram í rannsóknum og það bendir til þess að ef við samþykkjum þetta frumvarp muni neysluaukningin hér að öllum líkindum verða mest hjá konum og ungu fólki. Við erum núna þeirrar gæfu aðnjótandi að við erum með litla unglingadrykkju, við erum með mikla öldungadrykkju, en það segir t.d. í nýútkomnu fréttablaði frá Samhjálp um þá sem koma núna í Hlaðgerðarkot í meðferð að aukningin sé mest hjá yngra fólki og konum. Þetta er þróun sem við getum átt von á að verði megininntakið í því ef við opnum fyrir fjölgun útsölustaða áfengis.