145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur um það að unglinganeysla hefur dregist saman, og blessunarlega mjög mikið, á síðustu 15 árum. Ef fleira ungt fólk sækir sér aðstoð vegna áfengisneyslu mundi ég rekja það til breytts viðhorfs til ofneyslu áfengis, vegna þess að það viðhorf hefur einnig breyst. Núna er til eitthvað sem heitir hófleg og eðlileg áfengisneysla á meðan það var miklu meira um fyllirísdrykkju í gamla daga, að mínu mati. Og hafandi búið í öðrum samfélögum þar sem drykkjumynstur, menning og sölufyrirkomulag er öðruvísi en hér þá er það í samræmi við væntingar mínar af þeirri upplifun. Hins vegar finnst mér skrýtið að hv. þingmaður telji þetta hafa verið betra í gamla daga en vilji samt ekki fara þangað. Hann telur þetta mikið til skemmtistöðunum og veitingastöðunum að kenna, samkvæmt gögnum landlæknis, en vill ekki takmarka fjölda þeirra ef ég skil hann rétt. Það eru takmarkanir á opnun, ég átta mig á því. En hvernig er það hvað varðar fjölda, vill hv. þingmaður takmarka fjölda veitinga- og skemmtistaða?