145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vil ég takmarka fjölda skemmtistaða eða veitingahúsa? Ég sé ekkert að því að settar verði skorður við fjölgun veitingahúsa ef það er svo að þessar upplýsingar frá landlækni eru réttar. Ég sé ekkert að því að skerða opnunartíma þeirra vegna þess að ég held að það sé algerlega sannað að meðan opnunartími veitingahúsa í Reykjavík var sem lengstur fyrir fimm árum síðan var ófremdarástand í miðborginni helgi eftir helgi. Erlendir löggæslumenn sem voru fengnir hingað til ráðgjafar skildu ekkert í því að miðborg Reykjavíkur skyldi ekki vera hreinsuð af lögreglu, þ.e. fólki bara smalað út úr miðborginni þegar ástandið var sem verst undir morgun um helgar.

Víst er það svo að hér áður fyrr drukkum við sjaldnar og meira í einu. Það er engin meginbreyting þótt nú sé drukkið oftar og minna í einu, eins og ég sagði áðan. Heimilisofbeldi er líkt, ofbeldisglæpir eru líkir. Það hefur í sjálfu sér ekki breyst.