145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir með honum þegar kemur að þeim forvörnum sem við höfum beitt fram til þessa, hvort sem það er foreldrarölt eða eitthvað annað. Ég hef haft áhyggjur af því, af því að ríkið á að stýra og vera í fararbroddi fyrir forvörnum á alla kanta, að því miður hefur allt of mikið verið skorið niður undanfarin ár þegar kemur að forvarnafulltrúum í framhaldsskólum. Unga fólkið okkar er hvað viðkvæmast fyrir á þeim árum og í skólunum þyrfti að koma til aukin fræðsla og virkara samtal. Undanfarið hefur allt of mikið verið skorið niður þannig að ég held að við þurfum að velta því fyrir okkur að reyna frekar að bæta í það.

Ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um það að hér er í raun verið að ganga leið sem hentar gróðasjónarmiðum en ekki lýðheilsusjónarmiðum í samfélaginu.