145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði í fyrri ræðu minni: Fyrir hvern er þetta frumvarp flutt? Þjóðin biður ekki um það, 70% hennar eru á móti þessu. Ekki eru það þeir sem eiga við áfengisvanda að stríða sem biðja um þetta. Ekki eru það börnin eða Barnaheill eða Félag félagsfræðinga, hjúkrunarfræðinga eða lækna — það eru ekki þau sem biðja um þetta. Hverjir hafa mestan áhuga á þessu? Jú, það eru þeir sem ráða smásöluverslun í landinu. Það hlakkar í þeim yfir því að fá afhent á silfurfati 25 milljarða veltu ofan á það sem þeir eru að selja í dag sem eru einhverjir 200 milljarðar. Ég mundi gera það sjálfur í þeirra sporum, það er ekki nema mannlegt.

Ég velti fyrir mér hvers vegna menn eru að burðast með þetta mál hér inn í þingið sem er sannarlega ekki að vilja þjóðarinnar, almennings, sem er sannarlega ekki að vilja þeirra sem koma að heilbrigðismálum heldur virðist vera sniðið að þeim sem reka hér stórverslun.