145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:09]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær fínu umræður sem hafa verið um þetta blessaða mál núna á haustdögum. Mér telst til að það séu akkúrat 370 dagar síðan ég stóð hér í pontu og ræddi um það í fyrra. Það eru mjög skiptar skoðanir um það sem er ekkert óeðlilegt því þetta er mjög stórt mál, gríðarlega stórt. Menn hafa velt því fyrir sér fyrir hvern sé verið að flytja málið. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sem var hérna á undan mér velti því fyrir sér hvort málið væri flutt til heilla fyrir almenning eða hvort það væri fyrir einhverja aðra. Ég veit það ekki.

Þetta mál var afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd í mars síðastliðinn. Ég var einn á nefndaráliti sem ég afgreiddi frá mér 4. mars og þá voru eftir fjórir mánuðir af þingi. Málið kom ekki til 2. umr. og það vakti svolítið athygli mína. Ég velti því fyrir mér hvers vegna það var. Og ef þetta er forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á haustþingi hvers vegna í ósköpunum var það ekki afgreitt í vor og af hverju var ekki þrýst á það þá? Það stóð upp á mig í allsherjar- og menntamálanefnd að málið fengi brautargengi út úr nefnd og það var mitt atkvæði sem gerði það að verkum að það fór út úr nefndinni. Ég vil meina að það sé ekki góður bragur á því að vera að svæfa mál í nefndum. Þau eiga bara að koma til afgreiðslu hér og annaðhvort standa þau eða falla. Það er bara þannig. Ég er í eðli mínu mjög á móti þessu, mjög á móti því, sérstaklega að áfengi fari inn í stórmarkaði og einhverjar sjoppur. Það hefur líka komið fram í umræðunni að hér hefur útsölustöðum fjölgað, þ.e. veitingastöðum. Það er kannski ekki óeðlileg þróun í ljósi aukinnar ferðamennsku og annað. Ég er ekkert endilega voðalega hrifinn af því en við þurfum að standast kröfur og bjóða upp á að fólk geti fengið sér áfengi en það hefur líka komið í ljós að með því að gefa verslun með áfengi frjálsa þá mundi útsölustöðum áfengis sennilega fjölga úr 40–50 í 200. Það er engin smáaukning og áfengið á að fara inn í matvöruverslanir.

Hér hefur líka verið komið inn á nokkuð sem mér finnst svolítið merkilegt, og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það hefur enginn verið að kalla eftir þessu í samfélaginu. Hver kallar eftir þessu? Ég varð aldrei var við það í kosningabaráttunni. Ég hef bara aldrei heyrt að fólk sé að krefjast þess að áfengi fari í matvöruverslanir. Það er svona einn og einn sem vill endilega að það fari inn í matvöruverslanir, það er svo þægilegt að kaupa sér eina kippu þegar maður fer að kaupa mjólk handa börnunum.

Það hefur líka komið fram að þetta er engin venjuleg vara. Margir hv. þingmenn sem hér hafa flutt ræður hafa bent á hvaða afleiðingar of mikil áfengisneysla hefur í för með sér fyrir lýðheilsu og samfélagið í heild og kostar gríðarlega fjármuni. Því miður er það þannig. Ég held að því miður hafi ekki verið gerðar á Íslandi nógu miklar rannsóknir á því hvaða afleiðingar áfengisdrykkja hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag og hvað hún kostar, sjúkdómar henni tengdir, slys, sjálfsvíg. Hvað kostar þetta samfélagið í aurum talið? Við erum alltaf að velta okkur upp úr aurum en við þurfum ekki síst að spyrja hvað afleiðingarnar kosta samfélagið félagslega.

Málið var afgreitt út úr nefndinni í fyrra í mars og mér hefði fundist eðlilegt það hefði verið rætt hérna og fengið afgreiðslu og annaðhvort samþykkt eða fellt. Ég held nefnilega að það hefði verið fellt, góðu heilli, vegna þess að það er ekki meiri hluti fyrir því á þingi. Ég velti því líka fyrir mér vegna þess að málið hefur margoft verið lagt fram en aldrei fengið brautargengi á þingi. Af hverju ekki?

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa nefndarálit mitt vegna þess að ég fékk ekki séns á að gera það í vor og ég fæ ekki séns á að gera það núna vegna þess að ég er ekki lengur í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar er kominn úr mínum flokki einn af flutningsmönnum frumvarpsins þannig að ég fæ ekki tækifæri til þess en ég ætla að lesa þetta álit:

„Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) til smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Í greinargerð frumvarpsins eru taldir upp kostir þess að selja áfengi með annarri neysluvöru og m.a. vísað til þess að með samþykkt frumvarpsins geti neytendur sparað einhverjar fjárhæðir á því að sækja áfengi á sama stað og matvöru. Einnig er vísað til þess að áfengi sé almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri og að fyrirkomulag smásölu á áfengi eigi ýmislegt sameiginlegt með fyrirkomulagi á sölu matvöru. 2. minni hluti áréttar að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Áfengi hefur mikla sérstöðu og fráleitt að um það þurfi að gilda sömu viðmið og ýmsar aðrar vörur. Ábatinn af sölu og framleiðslu áfengis er samfélaginu afar dýrkeyptur. Það er einkum þrennt sem leiðir til þess að áfengi veldur svona miklu líkamlegu, andlegu og félagslegu tjóni, í fyrsta lagi eitrun í líkamanum, í öðru lagi víma og í þriðja lagi ánetjun eða fíkn. Þess vegna er áfengi engin venjuleg neysluvara. Reynslan sýnir að takmarkanir á aðgengi að áfengi geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi. 2. minni hluti bendir á skýrslu Evrópusambandsins um umfang áfengisvandans í Evrópu sem gefin var út árið 2006. Þar var bent á að íbúar Evrópu drekka meira en íbúar annarra heimsálfa og að afleiðingar þess væru gífurlegar en m.a. var vísað til þess að neysla áfengis væri þriðja algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla íbúa í aðildarríkjum Evrópusambandsins, næst á eftir tóbaki og háþrýstingi. 2. minni hluti bendir einnig á að hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi með öðrum neysluvörum. Íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, samanber m.a. 33. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem nú er hluti af lögum.

Annar minni hluti bendir á að aðgerðir sem auka aðgengi að áfengi geta haft áhrif á heilsu landsmanna til skemmri eða lengri tíma með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir samfélagið. Ljóst er að ef frumvarpið verður að lögum mun útsölustöðum fjölga úr 49 í allt að 200. Það mun leiða til stóraukins aðgengis að áfengi sem aftur leiðir til aukinnar áfengisneyslu. 2. minni hluti bendir á að í flestum löndum eru takmarkanir á því hver má kaupa og hver má selja áfengi. Slíkar takmarkanir byggjast á samfélagssýn sem lýtur að heilsu, öryggi og almennri reglu. Reynslan sýnir enn fremur að takmarkanir á aðgengi að áfengi geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi en með aðgengi er átt við hversu auðvelt er að verða sér úti um áfengi og neyta þess. 2. minni hluti bendir á að kannanir á höftum og aðgengi að áfengi hafa t.d. sýnt að stytting afgreiðslutíma og fækkun sölu- og útsölustaða haldist í hendur við minni neyslu og tjón af völdum hennar. 2. minni hluti bendir í þessu sambandi á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kynnti í maí sl.“ — það var árið 2014 — „skýrslu um áhrif áfengisneyslu á heilsufar 194 þjóða heimsins og þar kemur m.a. fram að í heild má rekja rúmlega 5% allra sjúkdóma og slysa í heiminum til áfengis. 2. minni hluti áréttar að frumvarpið sé þess eðlis að verði það samþykkt muni það auka áfengisneyslu þar sem í ákvæðum þess er áfengi meðhöndlað eins og það sé venjuleg neysluvara sem er ekki reyndin. Betur færi á því að þetta væri í sérverslunum þar sem frjáls sala áfengis í matvöruverslunum væri ekki framfaraspor fyrir þjóðina. Annar minni hluti bendir einnig á stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020, sem gefin var út í desember 2013. Þar kemur m.a. fram að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi að áfengi. 2. minni hluti áréttar að frumvarpið gengur þvert gegn meginmarkmiðum stefnunnar sem er í meira lagi umhugsunarvert. Sökum þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara á almenningur rétt á að stefna í áfengismálum sé vel ígrunduð, unnin af vandvirkni og farið varlega í breytingar á aðgengi að áfengi. 2. minni hluti bendir á að kostnaðurinn við að hefta aðgang að áfengi er lítill miðað við þann kostnað sem hlotist getur af neyslu áfengis.

Annar minni hluti tekur að meginstefnu undir umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar en þar kemur m.a. fram að ljóst sé að áfengi teljist seint til mikilvægustu neysluvara og ljóst sé að fleiri útsölustaðir séu líklegri til að auka neyslu. Umgjörð áfengissölu og áfengisvarnamála skipti máli, óháð því hvort salan sé frjáls eða ekki.

Annar minni hluti telur að það sé ekki hlutverk ríkisins að reka verslanir. Hann er sammála meginstefi frumvarpsins að ríkisverslun á áfengi verði aflögð. Hins vegar getur 2. minni hluti ekki lýst yfir stuðningi við þau áform að áfengi verði selt í matvöruverslunum heldur telur mikilvægt að áfengi verði áfram í sérverslunum líkt og verið hefur. Jafnframt áréttar 2. minni hluti mikilvægi þess að umgjörð áfengissölu, aðgerðir í lýðheilsumálum og mörkun áfengisstefnu miði að því að takmarka neyslu áfengis.“

Svo mörg voru þau orð. Ég fékk þó núna tækifæri til að lesa þetta nefndarálit. Ég vil benda á einn af síðustu punktunum sem er að ég er ekkert endilega á því að ríkið eigi að sjá um sölu á áfengi. Ég get séð það fyrir mér í sérverslunum en ekki í matvöruverslunum og ekki í stórmörkuðum, einfaldlega vegna allra þeirra rannsókna sem hafa sýnt fram á að það eykur neysluna gríðarlega. Og ég þarf ekki endilega að fara í gegnum það, það er búið að fara í gegnum það í mörgum ræðum að neyslan eykst um ótrúlega mörg prósent. Það var líka bent á það áðan að áfengisneysla var árið 1988 ef ég man rétt 4,5 eða 4,7 lítrar á mann áður en bjórinn kom en er komin upp í rúmlega 7 lítra þannig að bjórinn bættist bara ofan á. Ég get tekið undir það að áfengismenning á Íslandi hefur aðeins breyst síðan bjórinn var leyfður en neyslan hefur aukist. Ég hef líka tekið eftir því á síðustu árum að menn keyra meira undir áhrifum áfengis þrátt fyrir að þeir séu ekki teknir fyrir það. Maður horfir upp á það nánast á hverjum einasta degi að menn eru að keyra undir áhrifum áfengis, koma út af pöbbnum og fara upp í bíl og keyra, sem leiðir okkur að því að löggæsla í landinu er ekki nógu góð vegna þess að þar vantar fjármagn og mannskap.

Ég vona að þetta mál fái afgreiðslu og við klárum það og leiðum það til lykta. Ég hef eins og fleiri þingmenn nefnt það að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu því þetta er stórt mál, líka vegna þess að maður heyrir úti í samfélaginu að fólk er ekkert endilega á því að það eigi að gera þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu, það sé ánægt með þjónustuna eins og hún er núna. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi áðan hvernig þetta var í gamla daga. Það var bara asskoti gott austur á Vopnafirði, maður pantaði sér bara gröfu, fékk hana heim í hlað, rosafínt, þurfti ekki að fara neitt. Maður tók bara símann og hringdi. Ég er ekkert endilega að segja að hlutirnir eigi að fara í það horf en ég tel að þegar við ræðum svona mikið mál sem er margsannað með rannsóknum úti um allan heim að kostar gríðarlega fjármuni og hörmungar þá verðum við að vanda okkur mjög mikið. Við verðum að vanda okkur og velta fyrir okkur: Hverjir eru það sem drekka 80% af því áfengi sem er selt? Hverjir eru það? Þeir sem drekka 80% af því sem selt er af áfengi er fólk sem á í vandræðum með áfengi. Það eru alkóhólistarnir. Það er markhópurinn. Það er veikasta fólkið sem er markhópurinn fyrir áfengi. Þeir sem eru ekki í vandræðum með áfengi, sem eru 80% fjöldans, drekka ekki nema 15–20% af því og kunna með vín að fara og eru ekki í neinum vandræðum með að ná sér í það, en markhópurinn er veikasta fólkið sem mun eiga mun auðveldara með að ná sér í áfengi en áður. Ég sá það þegar ég átti heima í Danmörku. Konurnar sem voru að læðast út í Aldi og búðirnar á horninu til að kaupa sér ódýrt vín í fernum, það er fólkið sem markaðssetningin beinist að, það er fólkið sem er verið að reyna að ná í, t.d. stórmarkaðirnir. Það kom fram áðan að þeir sem munu græða mest á þessu eru stórmarkaðir, stóru verslunarkeðjurnar sem fá áfengið inn í verslun hjá sér.

Ég var að velta því fyrir mér í Nettó í Grindavík hvar áfengið ætti að vera þar. Hverju á að fórna út úr búðinni? Ávaxtakælinum hugsanlega. Það selst hugsanlega meira af áfengi en af ávöxtum. Ég velti líka fyrir mér starfsmannaveltunni í þessum verslunum sem eru komnar alls staðar út á land, þetta eru allt meira og minna krakkar að afgreiða, 15–16 ára krakkar sem eru í skóla og vinna aukavinnu við að afgreiða í matvöruverslun. Það væri fróðlegt að sjá hvernig tekst að manna þetta því ekki eru nú launin að drepa fólkið sem vinnur í þessum verslunum. Þess vegna vinnur ungt fólk þar vegna þess að það eru engin laun í þessu.

Þetta eru svona fabúleringar hjá mér, en ég segi bara númer eitt, tvö og þrjú: Vöndum okkur þegar þetta mál er annars vegar. Og ég segi eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, ég skil ekki hvers vegna þetta mál er lagt fram. Þótt ég beri fulla virðingu fyrir flutningsmönnum og virði þeirra skoðanir ætla ég samt að segja: Ég skil ekki af hverju þeir leggja málið fram í ljósi allra þeirra upplýsinga sem hafa komið fram og allra umsagna frá heilbrigðisyfirvöldum og þeim sem koma að þessum málum. Ég skil ekki af hverju þeir leggja þetta fram yfir höfuð, ekki síst vegna þess að það er enginn að kalla eftir þessu, ekki nokkur maður.