145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:36]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nú reyndar í annað sinn sem ég sit undir því sem kona og heimavinnandi húsmóðir í hlutastarfi að vera dregin sérstaklega inn í þessa umræðu fyrir að vera í áhættuhóp og útsett fyrir áfengisvandanum. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns. Hann nefndi sérstaklega konurnar á Spáni sem versluðu í Aldi. En ég ætlaði ekki að gera það að umtalsefni hérna en ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns sem á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar.

Ég verð að segja að honum er náttúrlega ekki alls varnað. Það gladdi mig að heyra hann þó nefna að einkasala ríkisins á áfengi væri honum ekki heilagt mál sem slíkt. Mig langaði að spyrja hann hvort það væri ekki rétt skilið hjá mér og hvort það væri eitthvað í frumvarpinu sjálfu sem hann hefði áhyggjur (Forseti hringir.) af og þá sölunni í matvöruverslunum sérstaklega.