145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:42]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að það væri svartamarkaðsbrak með bjór á Facebook, en það kemur mér svo sem ekkert á óvart. Það er nú bara eins og svo margt annað hérna. En hvort svartamarkaðsbrask mundi aukast eða minnka ef áfengissala færi inn í matvöruverslanir, var það ekki spurningin? Ég veit það hreinlega ekki. En ég er alveg algjörlega viss um að ef áfengissala fer inn í matvöruverslun mun áfengisneysla bara aukast og bætast ofan á það, það breytir engu um svartamarkaðsbrask. Ef menn eru í einhverju svartamarkaðsbraski þá eru þeir bara í því. Ég held að það muni ekki breyta neinu varðandi svartamarkaðsbrask þó að áfengissalan fari inn í almennar verslanir. En ég er alveg viss um, og það hefur komið fram áður, að það muni auka áfengisneyslu yfir höfuð. Það verður nákvæmlega eins og þegar bjórinn var leyfður, þá bættist hann bara ofan á þá drykkju sem fyrir var. Komið hefur fram í ræðum þingmanna að áfengisneysla muni jafnvel aukast upp í 11 lítra á mann á ári ef áfengissalan verður færð í almennar verslanir. Það finnst mér óhugguleg tala.

Hvað hitt varðar þá get ég bara ekki svarað því.