145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var mikið í umræðunni í sumar, þegar þjóðhátíð var í Vestmannaeyjum, að verslunareigendur ætluðu að selja áfengi eða bjór í verslunum á leiðinni frá Reykjavík til Landeyjahafnar. Nú hefur hv. þingmaður látið sig þau mál varða er snúa að því að koma í veg fyrir að ökumenn keyri undir áhrifum áfengis vegna þeirra hörmulegu afleiðinga sem það getur haft í för með sér.

Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér ef, ég ætla nú ekki að segja „þegar“ því að ég trúi ekki öðru en að skynsemin ráði ríkjum að lokum í þessu máli, áfengi kemur í verslanir, þar á meðal sjoppur og vegasjoppur, og ökumenn geta þess vegna keypt sér bjór í bílalúgu? Nú er ÁTVR ekki með einhverjar lúgur til þess að keyra fram hjá og kaupa eitt stykki bjór svo að aðgengi yrði með allt öðrum hætti. Ökumenn gætu til dæmis keypt sér bjór þegar þeir stoppuðu hjá verslunum eða sjoppum eða hvað við köllum það, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða víðar um landið. Eru þarna ekki enn ein rökin fyrir því að þetta gæti haft þær afleiðingar að það ýtti undir drykkju við akstur? Ég nefni þetta sem dæmi.