145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:03]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Árnadóttur fyrir þetta. Hv. þingmaður ræddi um ölvunarakstur og lýsti áhyggjum sínum af því að ölvunarakstur mundi aukast og auðveldara yrði fyrir ökumenn að koma við í sjoppu og grípa með sér bjór. Stórmarkaðir eru út um allt og jafnvel þótt þetta færi ekki inn í það sem við köllum sjoppur þá eru stórmarkaðir á hverju götuhorni og kjörbúðir.

Þetta leiðir hugann að öðrum afbrotum. Ölvunarakstur er auðvitað afbrot og kannski afleiðing aukinnar áfengisneyslu í samfélaginu og þá sjáum við fyrir okkur að slíkum tilfellum muni fjölga. Þá velti maður fyrir sér öðrum afbrotum sem eru tengd áfengisneyslu. Hvað með kynferðisbrotamál, kynferðisofbeldi? Er ekki kynferðisofbeldi mjög oft tengt áfengisneyslu? Er ekki ákveðin hætta á að við sjáum aukningu þar með aukinni neyslu og kannski ekki síður aukið heimilisofbeldi því að heimilisofbeldi er nátengt vímuefnum, áfengisneyslu og slíku?