145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:29]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að draga þá ályktun að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi dottað eða tekið of mikið í nefið í upphafi ræðu minnar þar sem ég fór sérstaklega yfir ástæður þess (Gripið fram í.) að ég teldi þetta mál mjög mikilvægt og hvers vegna það væri mikilvægt að það væri hér til umræðu. Ég lýsti því að það varðaði einstaklingsfrelsi og þar fram eftir götunum. Ég hef ekki dregið nokkra dul á stefnu Sjálfstæðisflokksins í því efni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð barist fyrir frelsi í verslun og minni ríkisafskiptum og hefur alls ekki staðið vörð um einhvers konar ríkisverslun. Hann mun ekki gera það. Það þarf því ekki að koma hv. þingmanni neitt á óvart. (ÖS: En röksemdafærslan fyrir …?) Röksemdafærslan — hér er væntanlega vísað til umræðu um lýðheilsusjónarmið. En ég verð að segja alveg eins og er að ég botna ekkert í umræðu um lýðheilsusjónarmið í þessu máli á hvorn veginn sem er, enda nefndi ég það sérstaklega að spurningin um það í hvaða stéttarfélagi menn eru sem afgreiða áfengið getur ekki verið hluti af lýðheilsumarkmiðum. Það getur ekki verið (Gripið fram í.) spurning um lýðheilsusjónarmið hvort það er ríkið sem selur áfengið eða Jón Jónsson. Ég rakti það í löngu máli í ræðu minni að ríkið sjálft sem eigandi ÁTVR-verslananna hefur lagt sig í líma við að auka áfengisúrvalið, auka aðgengið, auka afgreiðslu, lengja afgreiðslutímann, fjölga afgreiðsludögum í vikunni, það er opið sex daga vikunnar í dag nánast allan sólarhringinn. Það hefur ríkið gert.

Hvað spurninguna varðar um viðveru heilbrigðisráðherra tel ég ekkert undarlegt við að menn kalli eftir því að hann sé viðstaddur hér og lýsi afstöðu sinni til þessa máls. Ég óska þess að menn geri (Forseti hringir.) það sem oftast.