145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð bara að lýsa því yfir að hér erum við hv. þingmaður greinilega ósammála, því að í mínum huga er áfengi vissulega vara sem er neytt en er í mínum huga engin venjuleg neysluvara. Þess vegna tel ég fullkomlega eðlilegt að með hana sé verslað með öðrum hætti en ýmsar aðrar vörur.

Vegna þess að hv. þingmaður kom inn á það að þær rannsóknir sem við sem styðjum ekki þessa lagabreytingu höfum dregið fram, þ.e. að engin þeirra styðji eða sýni fram á það að söluformið skipti máli, þá verð ég einfaldlega að lýsa mig ósammála því. Það er ekki það sem ég hef lesið út úr þeim rannsóknum sem til að mynda komu frá landlæknisembættinu þar sem bent var á fjölmargar rannsóknir sem tóku til ólíkra þátta er varða það hvers vegna mikilvægt sé að takmarka aðgengi fólks að áfengi með vísan til lýðheilsumála, þar sem sumar rannsóknirnar tóku einmitt til þess hvernig sölufyrirkomulagið væri, þar sem vísað var til þess að ákveðið sölufyrirkomulag væri á flestöllum Norðurlöndunum, þar væri staðan önnur varðandi neysluna en til dæmis í Danmörku.