145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir það með honum að hér sé einmitt verið að rjúfa tiltekna sátt sem ríkt hefur um það fyrirkomulag sem hefur verið á sölu áfengis á Íslandi. Eins og hér hefur verið mikið rætt þá er í rauninni ekkert sem fólk eða almenningur getur beinlínis sagt að sé að þessu fyrirkomulagi, heldur vilja menn bara hafa það með öðrum hætti, þeir vilja auka á verslunar- og viðskiptafrelsi og dulbúa það undir merki einstaklingsfrelsis.

Varðandi þann íslenska veruleika sem við búum við, hvort heldur það er ferðabransinn eða verslunarhættir eða hvað, þá er hann sá í mínu litla samfélagi, eins og ég hef sagt áður, að þar er ein matvöruverslun. Það hefur líka verið rakið hér að það að fá áfengið inn í búðirnar kollsteypir auðvitað engu, að sjálfsögðu er það ekki rekstrargrundvöllur í sjálfu sér, það þarf svo margt annað að koma til til þess að verslun beri sig. Auðvitað veltir maður því líka fyrir sér hverju eigi að fórna í lítilli búð úti á landi þar sem er jú gjarnan verið að reyna að koma mörgu fyrir í litlu rými. Ef það á að rýma til fyrir brennivíni eða bjór eða slíku sem á svo helst að fela að sem mestu leyti, þá hlýtur að þurfa að fórna einhverju plássi sem áður var undir matvöru, fatnað eða eitthvað slíkt.

Ég hef líka sagt að ég tel að fyrir þá sem vilja eiga kost á fjölbreyttum tegundum í ÁTVR sé þetta fyrirkomulag skerðing, ef eitthvað er, á valfrelsi einstaklingsins, að vera í rauninni afhent ákveðin vara, í ljósi risanna sem ákveða hvaða matvara er send í búðina heim til mín. Það er ekki endilega til sama varan í Samkaup í Ólafsfirði eða á Akureyri, svo dæmi sé tekið. Þannig að ef ákveðin matvara fæst ekki í búðinni þá er ég nokkuð viss um að það verða ekki endilega í boði allar þær (Forseti hringir.) tegundir sem fólk getur þó núna valið um að keyra eftir í kannski korter eða hálftíma.