145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru eiginlega ótrúlega margir hlutir sem þarf að huga að þegar við fjöllum um það að setja áfengi í verslanir. Eins og ég sagði áðan er enginn sérstakur að kalla eftir þessu nema þá kannski fulltrúar fjármagnsins og verslunarinnar. Mér hefur fundist það vera eiginlega einu rökin og ég tel þau ekki vera nægjanleg í ljósi þeirra aðvarana sem við fáum alls staðar að.

Ég hef líka haft miklar áhyggjur af því að það er mikil starfsmannavelta í matvöruversluninni, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni, og þetta er ungt fólk. Það er mikill jafningjaþrýstingur og það er verið að setja ungt fólk í vandræði ef það á að selja jafnöldrum sínum áfengi. Þetta fyrirkomulag er líka miklu ágengara. Fólk hlýtur að vera sammála því að það er ágengara þegar maður labbar inn í litlu kjörbúðina sína og þetta blasir við. Maður felur ekki brennivín svo glatt í lítilli kjörbúð, það er bara ekki þannig nema við ætlum að hverfa aftur til þess þegar það var afgreitt yfir borðið eins og „í den“ og allt í lagi með það, þá gerum við það bara en ég held að það sé ekki endilega það sem við viljum og flutningsmenn vilja.

Ég er ágætlega ánægð með flest í stefnu ÁTVR. Þeir vilja hafa ákveðnar fjarlægðir milli sölustaða. Þess vegna hefur þeim fjölgað. Þeir hafa lagt sig fram um að veita góða þjónustu. Ég er ánægð með það og tel að þeir hafi staðið sig vel í því. Þeir eiga líka, eins og kemur fram í frumvarpinu, gott samstarf við lögreglu, þeir eiga gott samstarf þegar kemur að forvörnum. Það er hins vegar ekki eitthvað sem ég get séð að verði heimfært upp á verslunina, á frjálsa markaðinn. Ég hef líka áhyggjur af því að gerðar verði auknar kröfur um frjálsar auglýsingar í beinu framhaldi.