145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður var í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta þingi þar sem málið var nánast óbreytt til umfjöllunar. Mig langar til að spyrja hana um þau sjónarmið sem lúta sérstaklega að hagsmunum barna vegna þess að hv. þingmaður er í hópi þeirra þingmanna á Alþingi sem eru talsmenn barna. Ég get ekki betur séð í umsögnum við frumvarpið eins og það var lagt fram á síðasta þingi en að allir þeir aðilar sem fjalla um málið út frá sjónarhóli eða hagsmunum barna mæli gegn því, allir.

Í umsögn frá umboðsmanni barna er sagt fullum fetum að sala áfengis í matvöruverslunum mundi ekki einungis auka aðgengi barna og ungmenna að áfengi heldur einnig leiða til aukinnar áfengisneyslu í samfélaginu, og vísað er í heimasíðu embættis landlæknis þar sem segir að afnám á einkasölu áfengis leiði til aukinnar heildarneyslu. Í umsögninni segir að öll börn hafi rétt á því að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð eins og nokkurs er kostur gegn neikvæðu áhrifum áfengisneyslu.

Í umsögninni er síðan tekið dæmi um áhrif af neyslu áfengis á börn, að neysla áfengis auki líkurnar á vanrækslu, ofbeldi, umferðarslysum og öðrum slysum þar sem börn eru þolendur. Þá hafi áfengi líka áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks o.s.frv. Ég spyr: Sér hv. þingmaður einhvers staðar í einhverri umfjöllun við meðferð málsins rök sem mæla með þessari skipulagsbreytingu og eru í þágu hagsmuna barna?