145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt það sem maður er svolítið hugsi yfir, það er jú verkefni okkar sem á Alþingi að gæta heildarhagsmunanna. Það læðist að manni sú tilfinning að hér sé fyrst og fremst um tvennt að ræða, annars vegar að beinlínis sé verið að ganga erinda sérhagsmuna, þ.e. þeirra einkaaðila sem hagnast munu á breytingunni. Hins vegar sé um það að ræða að menn séu að ganga erinda sinnar eigin pólitísku kreddu þar sem manni virðist hugmyndin um áfengi í matvöruverslanir vera nánast eins og táknmynd fyrir baráttu sjálfstæðismanna fyrir betra samfélagi. Að þetta eina mál sé leiðin til að sýna að ef þetta væri komið værum við komin með opnara, frjálsara og betra samfélag. Þetta hefur mjög lengi verið ofarlega á blaði hjá Heimdalli og Sambandi ungra sjálfstæðismanna o.s.frv. og er alltaf partur af ályktanapakka þeirra um áratugaskeið og þegar blik kemur í augu sjálfstæðismanna finnst manni að þetta sé parturinn af því að segja að þegar við erum búin að stíga þetta skref sé heimurinn orðinn betri, þá verði Ísland orðið betra samfélag. Þetta er meira í ætt við kreddu eða einhvers konar táknmynd en annað.

Við fórum sérstaklega yfir hagsmuni barna. Ég tek eftir því bæði í umsögn embættis landlæknis og ekki síður í umsögn Læknafélags Íslands kemur fram að varnarlausustu fórnarlömb ofneyslu áfengis eru börnin, af því að hér tala menn stundum að við séum bara að tala um fullorðið fólk, að neysla áfengis muni kannski aukast eitthvað en þá hjá fullorðnu fólki. En það er nákvæmlega þetta fullorðna fólk sem býr börnunum heimili, sem býr börnunum einhvers konar skilyrði.

Læknafélag Íslands bendir sérstaklega á að Alþingi hafi nýlega lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og bendir á að það sé þversagnakennt að ætla í framhaldi af því að samþykkja frumvarp sem fyrir fram er vitað að muni hafa neikvæð áhrif á líf og uppvöxt barna og ungmenna (Forseti hringir.) sem búa við ofneyslu áfengis í sínu nánasta umhverfi.