145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umræðu. Eins og hv. þingmaður sjálfsagt veit erum við ekki sammála um þetta mál, að hluta til vegna þess að ég tel að lýðheilsusjónarmiðin skipti ekki ein máli heldur er líka tekist á um gildismat sem varðar frelsi í frumvarpinu og þá á ég ekki við viðskiptafrelsi. Mér er í sjálfu sér alveg sama um viðskiptafrelsi í þessu sambandi. Ég gef ekkert fyrir frelsi manna til að selja eiturlyf og áfengi er eiturlyf, ekkert minna eiturlyf en þau ólöglegu svo að það sé algjörlega á hreinu. Ég er til í rökræðu við hvaða mann sem er um það. Það er staðreynd.

En þetta mál snýst líka um einstaklingsfrelsi. Það er ekkert endilega allt einstaklingsfrelsi jákvætt, ég geri mér grein fyrir því sem ég er viss um að hv. þingmaður er sammála mér um, en málið snýst samt um einstaklingsfrelsi að einhverju leyti. Þetta er líka spurning um gildismat. Þetta er ekki einfaldlega spurning um lýðheilsu á móti ekki lýðheilsu.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað og ræði við hv. þingmann, fyrir utan það hversu gaman það er, er sú að ég er forvitinn að vita afstöðu hv. þingmanns gagnvart einu ákvæði sem kemur fram í frumvarpinu en er nú þegar efnislega í lögunum. Það er bann við heimabruggi, að fólk búi til sitt eigið vín heima fyrir upp að ákveðnum styrkleika, upp að 22% eins og það er í Noregi til dæmis. Þetta bann er nefnt í frumvarpinu í þeim skilningi að bannið er skýrt en því er ekki breytt efnislega. Mér hefur fundist þetta svolítið skrýtið með hliðsjón af því að markmið frumvarpsins er að auka frelsi fólks. Þá hefði maður haldið að þetta væri fyrsta frelsið sem maður mundi veita í nafni einstaklingsfrelsis, burt séð frá viðskiptafrelsinu. Ég velti því fyrir mér hvert viðhorf hv. þingmanns yrði til þess að breyta því og heimila til dæmis heimabrugg upp að 22%.