145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það að nú kemur hv. þingmaður á mig bera. Ég hef ekki mikið velt fyrir mér lagaumgjörð um heimabrugg. Ég ætla bara að játa það. Ég mundi líka vilja vita af hvaða ástæðum þetta er svona, vita eitthvað meira áður en ég færi að tjá mig um það hvort við ættum að breyta lögum og reglum þar um.

Talandi um frelsi þá er ég jafnaðarmaður og okkar gildi eru frelsi, jafnrétti og samstaða. Þar er einmitt frelsi lykilatriði, frelsi okkar einstaklinganna, ekki síst frelsi okkar frá fátækt, úr viðjum fátæktar. Það er óháð þessu heimabruggi.

Frelsi þarf ekki alltaf að vera það að hver og einn fái að gera nákvæmlega það sem hann vill heldur að við byggjum upp samfélag samábyrgðar þar sem við njótum frelsis í krafti þess að restin er tilbúin til að tryggja okkur fyrir áföllum þegar við framkvæmum ýmislegt af því sem hugur okkar stendur til, í nafni þess frelsis sem við höfum. Ég lít einmitt svo á að það að ákveða að aðgengi skuli takmarkað að skaðlegum vímuefnum eins og áfengi auki á frelsi og vellíðan í almennum skilningi og að það sé mikilvægara en að ég hafi óheft aðgengi að áfengi í matvöruversluninni. Ég hef mjög greitt aðgengi (Forseti hringir.) að því engu að síður, þannig að frelsi mínu eru settar mjög litlar skorður.