145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir tilvalið að ræða þetta efni við þetta tilefni einmitt vegna þess að frumvarpið er lagt fram í nafni þess að auka frelsi, en það er þessi ríka áhersla á viðskiptafrelsi. Sömuleiðis þessi afstaða frumvarpsins að leggja niður áfengishlutann af ÁTVR — eitthvað sem er ekki endilega nauðsynlegt að gera. Það er hægt að hafa hvort tveggja. Það er hægt að hafa opinberar vínbúðir en sömuleiðis áfengissölu í búðum. Það er gert til dæmis í Finnlandi. Þar getur maður keypt bjór úti í búð en þarf að fara í ríkið til að kaupa áfengi. Í Kanada, að minnsta kosti í Manitoba, hinu ágæta nýja Íslandi eins og hluti af því heitir, eru bjórbúðir sem selja bara bjór og ekkert annað, en til þess að kaupa vín og slíkt þá fer maður í opinberar verslanir sem eru reknar af fylkinu Manitoba.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti séð fyrir sér slíkt fyrirkomulag, að það gengi ekki svo langt á lýðheilsusjónarmiðin að til greina kæmi að styðja eitthvað slíkt.