145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar. Hún var mjög efnisgóð og hv. þingmaður rakti mjög vel með hvaða rökum hún nálgast þetta mál. Eins og þetta birtist mér finnst mér eins og flutningsmenn þessa máls hafi ruglað saman tveimur hugtökum sem eru ekki alveg jafn þýðingarmikil, annars vegar hugtakinu „frelsi“, sem skiptir mjög miklu máli, og hins vegar hugtakinu „vesen“, sem er auðvitað leiðinlegt að þurfa að standa í en er ekki takmarkandi fyrir einstaklingsfrelsi eða mannréttindi einstaklinga. Auðvitað er það meira vesen fyrir fólk að þurfa að fara í sérverslun til þess að ná sér í áfengi en það getur tæpast talist hluti af mannréttindum, eða hvað? Þetta er það sem ég velti fyrir mér og mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hver skilgreining hans sé á einstaklingsfrelsi í því samhengi.

Nú er það þannig að alls konar vörur eru seldar í sérverslunum. Er það hluti af persónufrelsi eða mætti segja að það væri einhvers konar sjálfsagt viðskiptafrelsi að geta keypt bensín í matvöruverslunum? Er það sérstaklega hamlandi fyrir einstaklingsfrelsi að geta það ekki? Er það hamlandi fyrir einstaklingsfrelsi að þurfa að fara í apótek eftir tilteknum vörum? Er það sjálfsögð krafa hvers einstaklings að geta keypt alla vöru alls staðar? Það er það sem ég velti fyrir mér í þessu samhengi. Er verið að ganga á persónufrelsi einstaklinga með því að láta þá þurfa að fara í áfengisverslanir til þess að kaupa áfengi?