145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svar mitt er nei, ég vil ekki að áfengisneysla aukist. Ég er ánægð með það að íslensk umgmenni drekka í mun minna mæli en ungmenni í öðrum Evrópuríkjum og það sama á við um ungmenni í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Ég vil ekki að þeim fjölgi sem eiga við alvarlegan áfengisvanda að stríða, en þeim mundi væntanlega fjölga að einhverju marki. Ég vil ekki að fólk sem neytir áfengis í hófi auki neyslu sína sem mundi þar af leiðandi fjölga alls kyns neikvæðum áhrifum, svo sem eins og á heilsufar, auka áhættu í umferð, hafa áhrif á fjölskyldulíf og svo mætti lengi telja. Ég get ekki ímyndað mér hvaða rök fólk ætlaði að færa fyrir því að það yrði jákvætt fyrir íslenskt samfélag að hér ykist áfengisneysla. Þetta frumvarp, yrði það (Forseti hringir.) að lögum, mundi leiða af sér aukna áfengisneyslu.