145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Mig langar til að beina áþekkri spurningu til þingmannsins og ég gerði áður til hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kemur úr fámennu byggðarlagi og ein röksemdin, ef svo má vísa til hennar, af hálfu þeirra sem hafa talað fyrir frumvarpinu er sú að breytt fyrirkomulag á sölu áfengis sé sérstaklega hugsuð til hagsbóta landsbyggðinni, að sá dreifingarmáti sem við búum við með áfengis- og tóbakssölu ríkisins sé sérstakt helsi á landsbyggðinni. Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvert álit hennar er og hvað kemur fram í máli manna í heimabyggð hennar þegar þessi mál koma til umræðu. Telur fólk það sérstakt framfaramál að þetta frumvarp Sjálfstæðisflokksins nái fram að ganga? Eða eru önnur sjónarmið uppi? Því miður get ég ekki beint þessu til hæstv. forseta sem er upptekinn í ræðustól, en hann þekkir einnig til á svipuðum slóðum og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, á Vestfjörðum nefnilega.