145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nýkomin úr kjördæmaviku þá get ég ekki sagt að slagorðið „brennivín í búðir“ hafi hljómað þar meðal þeirra sveitarstjórnarmanna og íbúa sem við þingmenn kjördæmisins hittum. Þar var auðvitað efst á blaði jöfnun búsetuskilyrða, jöfnun raforkuverðs, ljósleiðari og háhraðatengingar, gott skólakerfi, gott heilbrigðiskerfi og aðgengi að góðu heilbrigðiskerfi og góðar samgöngur. Ég gæti haft langan lista þar uppi í þeim efnum það sem brann á sveitarstjórnarmönnum úr öllum flokkum og hjá almenningi. En áfengi í verslanir var ekki nefnt á nafn þó að menn vissu að þetta mál hefði verið til umræðu og kæmi hingað inn aftur.

Frumvarp þetta er ekki gert fyrir hinar dreifðu byggðir, þvert á móti. Landsbyggðin vill náttúrlega sitja við sambærilegt borð í þeim efnum að geta haft aðgengi að áfengisverslun, þetta er lögleg vara, og vill hafa sama fjölbreytta úrvalið og er á höfuðborgarsvæðinu. Það mun auðvitað gjörbreytast ef einkaréttur ÁTVR eða ríkið má ekki lengur versla með þá vöru, vegna þess að þessar smærri verslanir úti um land hafa auðvitað aldrei neina burði til þess að liggja með lager af fjölda vörutegunda í þessum efnum. Það yrðu bara einhver ódýr vín og fáar tegundir sem mundu vera þar í boði í verslunum (Forseti hringir.) og gjörbreytt umhverfi yrði, varan (Forseti hringir.) mundi hækka því að flutningskostnaður mundi leggjast ofan á.