145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef þetta mundi ganga eftir yrði það mikil afturför og bakslag frá því sem nú er í framboði á þeirri vöru fyrir þá sem hafa aldur til að kaupa hana. Aðgengi að vörunni yrði með allt öðrum hætti, því að það eru auðvitað mjög fá svæði úti á landi sem bera einhverjar sérverslanir eins og verið er að tala um að menn vilji sjá þetta, kannski bara í sérverslunum en ekki almennum verslunum, heldur sérverslunum. Það er kannski hægt á höfuðborgarsvæðinu að hafa eitthvað slíkt og þá sé verið að færa hagnaðinn frá ríkinu yfir til einkageirans, eins og mönnum er mikið kappsmál að gera. En gagnvart landsbyggðinni er hún hreinlega skilin út undan í þessum efnum og það yrði mikil afturför.

Við vitum að í dag er jöfnun varðandi verð á olíu og bensíni, og það er vel. Vilja menn snúa til baka með það, ég spyr líka eins og hv. þingmaður, ef menn sjá ofsjónum yfir því að sama verð sé á áfengi úti á landi eins og það er í dag? Vilja menn snúa til baka með það? Hjá Mjólkursamsölunni er jöfnuður á ferðinni, sama verð er á mjólk og mjólkurvörum alls staðar á landinu. Vilja menn snúa til baka þar? Menn sem tala fyrir því í Sjálfstæðisflokknum að jafna orkuverð, eru þeir alveg sáttir við að þessi vara verði á miklu hærra verði úti á landi? Ég spyr.