145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel að það sé ekki ósanngjörn ósk hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að vilja fá hæstv. heilbrigðisráðherra hingað til umræðunnar áður en henni lýkur. Það liggur alveg ljóst fyrir að hann hefur lagt fram skýra stefnu í þessu máli, þ.e. hann hefur sagt það að markmið númer eitt í vímuvarnarstefnu hans sé að takmarka aðgengi að áfengi. Er þá ekki rétt að við fáum það fram að hann sem æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins í þessum málum segi okkur það mat sitt hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir sé í samræmi við þá stefnu eða ekki?

Ég spurði hv. þm. Sigríði Andersen að því hér í dag hvort hún teldi ekki að þetta væri sanngjörn ósk af hálfu okkar hér. Hv. þingmaður svaraði algerlega ærlega að hún teldi að svo væri. Það erum því ekki við ein í stjórnarandstöðunni sem teljum þetta sanngjarna kröfu heldur er ljóst að í stjórnarliðinu finnst mönnum að við séum ekki að fara yfir nein hófleg mörk í þeim efnum. Ég skora því á hæstv. forseta að sjá til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað (Forseti hringir.) og ef hann vill ekki koma hingað, að hæstv. forseti beiti valdi sínu, sem er töluvert, til að tryggja það.