145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnast mjög gild rök færð hér fram um nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra og ég sakna þess í raun að hafa ekki fleiri fulltrúa ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna og þeirra sem flytja þetta mál viðstadda umræðuna vegna þess að hér fer fram mjög skemmtileg rökræða. Það er ekki oft sem okkur gefst tækifæri til að ræða grundvallarspurningar á borð við einstaklingsfrelsi og frjálslyndi í þessum þingsal þannig að það væri mjög til bóta að geta fengið hér aðeins dýpri umræðu og lengri um þetta mál, sérstaklega í ljósi þess að á dagskrá þingsins síðustu tvo daga hafa verið tvö eða þrjú mál og í rauninni alveg hraksmánarlega stutt dagskrá. Því ætti að vera rúmur tími fyrir okkur til að taka hér góða umræðu um þetta mál eftir helgi líka.