145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og hæstv. forseta á að vera orðið ljóst er það fátt sem við þingmenn í þessum sal þráum jafn heitt og að fá að heyra hvað hæstv. heilbrigðisráðherra hefur að segja um þetta mál. Umræðurnar í dag hafa að verulegu leyti snúist um það hvort þetta frumvarp sé í anda góðrar lýðheilsustefnu eða ekki og það sem við, a.m.k. ég, viljum fá að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra segja er hvort frumvarpið sé í samræmi við þá stefnu sem hann sjálfur kynnti. Sömuleiðis vildi ég gjarnan fá að spyrja hann út í það hvað liði þeirri aðgerðaáætlun sem hann lýsti yfir að yrði nú hrundið í að minnsta kosti samningu og framkvæmd hið fyrsta þar sem meðal annars átti að útfæra meginmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum. Þar er númer eitt takmörkun á aðgengi að áfengi.

Ég vil fá að sjá með hvaða hætti hann vill útfæra það og vega það og meta hvort það (Forseti hringir.) sem til dæmis hv. þm. Willum Þór Þórsson sagði í dag samræmist þeim markmiðum. Það er hugsanlegt — en það er ekki nema ein leið til að komast að því.