145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru orð að sönnu. Við erum sem samfélag að eyða ótrúlega litlum fjárhæðum í þau fátæklegu meðferðarúrræði sem í boði eru. Það er samt ánægjuefni að fleiri úrræði eru í boði hér en í mjög mörgum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við fyrir þá sem verða áfengisvanda að bráð.

Mig rekur minni til þess að Ari Matthíasson hafi á sínum tíma unnið verkefni þar sem hann reiknaði saman kostnað samfélagsins vegna vímuefna og tók þar allt undir; löggæslukostnað, heilbrigðiskostnað o.s.frv., kostnað af þeirri starfsemi sem fer í að sinna þeirri þjónustu sem þarf vegna þessara mála. Ég held að talan hafi verið 80 milljarðar á ári þegar allt var samantekið — 80 milljarðar. Auðvitað getur það rokkað til og frá eftir því hvernig menn reikna þetta, en þetta eru gríðarlegar upphæðir sem menn eru að tala um hér sem kostnað sem samfélagið ber vegna vímuefnamála.

Til samanburðar held ég að framlag til íslenska ríkisins til meðferðarstofnunarinnar að Vogi sé um það bil 600–700 milljónir, einhvers staðar undir milljarði á ári. Þar eru stöðugir biðlistar og vandinn sem þar er við að etja, þegar kemur að mismunandi ólíkum viðskiptavinum, liggur mér við að segja, kúnnum sem þurfa að koma þar inn, er gríðarlegur. Það er fjölgun á öllum sviðum, fjölgun í hópi aldraðra, fjölgun þeirra sem þurfa á skaðaminnkandi úrræðum að halda o.s.frv. Við eigum miklu frekar að vera að fókusera á þá hlið málsins en á það sem við erum að gera hér.